Átt þú rétt á húsnæðisbótum?

Umsækjandi og heimilismenn hans þurfa að uppfylla nokkur skilyrði til að eiga rétt á greiðslum húsnæðisbóta.

Þú getur kannað rétt þinn til húsnæðisbóta með reiknivél fyrir húsnæðisbætur.


Skilyrði húsnæðisbóta

1. Umsækjandi og heimilismenn þurfa að vera búsettir í íbúðarhúsnæðinu og eiga þar lögheimili. 

Undanþágur frá skilyrði um búsetu:

Þrátt fyrir skilyrði um búsetu getur einstaklingur átt rétt til húsnæðisbóta þótt hann eigi skráð lögheimili annars staðar á Íslandi, hafi hann tímabundið aðsetur í húsnæðinu vegna:

 • náms 
 • veikinda
 • dvalar á áfangaheimili 
 • tímabundinnar vinnu fjarri lögheimili


2. Umsækjandi um húsnæðisbætur þarf að hafa náð 18 ára aldri. Aðrir heimilismenn þurfa ekki að vera orðnir 18 ára.


3. Íbúðarhúsnæðið þarf að lágmarki að hafa eitt svefnherbergi, séreldunaraðstöðu, sérsnyrtingu og baðaðstöðu.

Undanþágur frá skilyrði um útbúnað húsnæðis:

Þrátt fyrir skilyrði um íbúðarhúsnæði er heimilt að greiða húsnæðisbætur þegar um er að ræða:

 • Sambýli námsmanna á heimavistum eða námsgörðum
 • Sambýli fatlaðs fólks í húsnæðisúrræðum
 • Sambýli einstaklinga á áfangaheimilum 


4. Umsækjandi þarf að vera aðili að þinglýstum leigusamningi til a.m.k. þriggja mánaða.

Undanþágur frá skilyrði um þinglýsingu:
Heimilt er að greiða húsnæðisbætur þrátt fyrir að ekki liggi fyrir þinglýstur leigusamningur þegar um er að ræða:
 • Leigu á íbúðarhúsnæði í eigu ríkis eða sveitarfélags
 • Leigu námsmanna á herbergi eða íbúð á heimavist eða námsgörðum
 • Tímabundin afnot búseturéttarhafa við nauðungarsölu til eigin nota, í allt að tólf mánuði
 • Sambýli einstaklinga á áfangaheimilum
Skriflegur leigusamningur þarf þó alltaf að liggja fyrir þó svo að honum sé ekki þinglýst. 


5. Umsækjandi og aðrir heimilismenn, sem eru eldri en 18 ára, þurfa að gefa samþykki sitt til upplýsingaöflunar.

Upplýsingaöflun tekur m.a. til tekna og eigna frá Ríkisskattstjóra, upplýsinga um lögheimili frá Þjóðskrá og upplýsinga um leigusamninga frá sýslumönnum og sveitarfélögum.


Húsnæðisbætur eru ekki greiddar:

a. Ef umsækjandi eða aðrir heimilismenn sem umsókn tekur til eru á sama tíma skráðir til heimilis í öðru íbúðarhúsnæði í annarri umsókn um húsnæðisbætur sem hefur verið samþykkt.  Barn yngra en 18 ára getur þó talist heimilismaður hjá báðum foreldrum sínum eða forsjáraðilum.

b. Ef leiguhúsnæði er ætlað til annarra nota en íbúðar eins og t.d. atvinnuhúsnæði, jafnvel þó að það sé leigt út til íbúðar. 

c. Vegna leigu á hluta úr íbúð eða einstökum herbergjum.
Þó er heimilt að greiða húsnæðisbætur þegar einstök herbergi eru leigð ef um er að ræða:
 • Sambýli námsmanna á heimavistum eða námsgörðum
 • Sambýli fatlaðs fólks í húsnæðisúrræðum
 • Sambýli einstaklinga á áfangaheimilum
d. Ef einhver heimilismanna á rétt á vaxtabótum eru húsnæðisbætur ekki greiddar. 

e. Ef einhver heimilismanna er eigandi að leiguíbúðinni eða á ráðandi hlut í félagi sem á viðkomandi íbúð, annaðhvort einn eða með nákomnum fjölskyldumeðlimum.

f. Þegar húsnæðisbætur eru þegar greiddar vegna sama íbúðarhúsnæðis. 


Þessi síða notar vafrakökur

Lesa meira